top of page

SJÓNARMIÐ Þú sest á vélina og snýrð henni uns þú sérð ekki annað en túnin á Hömrum í forgrunni, Hamrahamra ber við himin og skóglausar hlíðarnar neðan undir þeim. Láttu myndina liggja hæfilega lengi í framköllunarvökva og fixer hugans að hún varðveitist um ókomna tíð. Snúðu nú vélinni, hvort heldur er réttsælis eða rangsælis, og í rammanum framkallast nýjar myndir, skógarmyndir. Við þessa aðgerð, að snúa vélinni, hefur þú gert myndavélina að tímavél. Beitilönd hafa orðið skóglendi á þann reynslulausa hátt sem trén vinna með tímanum. Þegar þú ferð að venjast vélinni og verða tamt að vinna með hana, getur þú valið þér það sjónarhorn sem þér fellur best og stillt á þína uppáhaldsmynd í hvert sinn sem þú kemur. Geymdu myndirnar – og gleymdu ekki hjali lækjarins, skrjáfi laufsins og ilmi beitilyngsins. Við að ná tökum á myndavélinni verður hún óþörf. Komdu aftur á sama stað að nokkrum árum liðnum og enn mun vélin þjóna þér, þótt hún verði ekki til staðar. Á nýrri öld verða nýir skógar – nýjar myndir.  Texti: Aðalsteinn Svanur

Sjónarmið

bottom of page